Uppgjör Apple vegna síðasta ársfjórðungs 2012 (1. ársfj. reikningsársins) olli vonbrigðum. Uppgjörið var birt eftir lokun markaða á Wall Street í kvöld.

Hlutabréf félagsins hafa lækkað mikið eftir lokun markaða. Fyrst eftir birtinguna höfðu þau fallið um 4% en lækkunin stendur nú í 10% og er gengi félagsins 462. Framvirk viðskipti gefa þó ekki endilega rétta mynd og því er ekki ósennilegt að talsverð breyting verði við opnun markaða á morgun.

Metsala

Metsala var bæði á Iphone símum og Ipad á fjórðungnum. Alls seldust 47,8 milljón Iphone síma, sem er 29% aukning frá sama tíma í fyrra. Tæplega 23 milljónir Ipad seldust sem er 49% aukning milli ára.

Ástæða lækkunarinnar í dag má rekja til lægri álagningar sem fram kemur í uppgjörinu. Einnig er líklegt að tilkynning Apple í síðustu viku um að fyrirtækið hafi dregið úr framleiðslu á Iphone hafi einnig haft frekari áhrif.