Hlutabréfaverð í Bandaríkjunum náði sínum hæstu hæðum í þessum mánuði í kjölfar þess að JP Morgan Chase tilkynnti um að yfirtökutilboð í alla starfsemi Bear Stearns yrði hækkað verulega. Bréf í Bear Stearns tvöfölduðust í verði eftir að JP tilkynnti um að 10 dollarar yrðu greiddir fyrir hvert bréf í stað þeirra tveggja dollara. Tiffany & Co, næststærsti söluaðili hágæðaskartgripa í Bandaríkjunum birti uppgjör framar væntingum, og hafði það jafnframt jákvæð áhrif á markaðinn. Bloomberg greinir svo frá.

Standard & Poor's 500-vísitalan bætti við sig 1,7% prósentustigum, og er þetta í fyrsta skipti í þessum mánuði sem vísitalan hækkaði tvo daga í röð. Dow Jones hækkaði um 1,6% og Nasdaq hækkaði um 3,1%. Hlutabréf í Asíu höfðu jafnframt hækkað þegar markaðir lokuðu í morgun, en markaðir í Evrópu voru lokaðir í dag vegna páskahátíðarinnar.

Dollarinn styrktist í dag gagnvart evru og jeni, og gullverð lækkaði. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa lækkaði einnig.

Olíuverð fór niður fyrir 100 dollara í dag, og við lokun markaða kostaði tunnan 99,86 dollara og hafði lækkað um ríflega hálft prósent.