Tekjur samfélagsmiðilsins Twitter fóru fram úr væntingum á þriðja ársfjórðungi, en þrátt fyrir það lækkuðu hlutabréf fyrirtækisins um átta prósent í gær. Tekjurnar námu 361 milljónum dala, tæplega tíu milljónum meira en búist var við.

Fjárfestar hafa hins vegar áhyggjur af því að notendum fjölgar ekki eins hratt og vonir hafa staðið til. Virkum notendum fjölgaði um 23 prósent á þriðja ársfjórðungi og þeir eru nú 284 milljónir talsins. Fyrirtækið hefur undanfarið reynt að gera skráningu á Twitter auðveldari og reynir nú nýjungar til þess að fá fólk til að nota miðilinn oftar og lengur.

Twitter fór á markað í nóvember síðastliðnum og kostaði þá hluturinn 26 dali. Bréfin fóru hæst í tæplega 75 dollara í desember en hafa eftir það fallið hratt. Eftir að greint var frá árshlutauppgjörinu í gær féllu bréfin um átta prósent, niður í 44,77 dali.