Gengi hlutabréfa Icelandair hefur lækkað um 7,58% frá opnun markaða í morgun í 599 milljóna króna veltu. Félagið kynnti uppgjör sitt í gær þar sem fram kom að félagið hefði hagnast um 66,5 milljónir dala á síðasta ári, jafngildi 8,7 milljarða íslenskra króna, samanborið við 56,4 milljónir dala árið áður.

Í tilkynningu um uppgjörið sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, að afkoma ársins væri betri en áætlanir stjórnenda hefðu gert ráð fyrir í upphafi árs og að EBITDA ársins sé við efri mörk síðustu afkomuspár félagsins. En hver er þá ástæðan fyrir þessari miklu lækkun?

Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningadeildar Íslandsbanka, segir ástæðuna einfalda; afkoma félagsins hafi ekki verið í samræmi við væntingar markaðarins. „Þetta er talsvert undir væntingum, það er einfaldlega ástæðan. Á móti koma þessar flutningatölur sem þeir birtu núna í morgun, en þær duga samt ekki til þess að vega upp neikvæð áhrif frá hinu.“

Við lokun markaða í gær stóð úrvalsvísitalan í 1.399,19 stigum og var jafnvel útlit fyrir að hún færi í fyrsta skipti í sögunni yfir 1.400 stig í dag. Þessi mikla lækkun á hlutabréfum Icelandair hefur hins vegar haft mikil áhrif á vísitöluna til lækkunar og stendur hún nú í 1.368 stigum.