Hlutabréfaverð Meta, móðurfélags Facebook, hefur hækkað um 19% í viðskiptum fyrir opnun markaða. Meta birti ársuppgjör í gærkvöldi og tilkynnti á sama tíma um að stjórnin hefði heimilað félaginu að verja 40 milljörðum dala til viðbótar í endurkaup.

Mark Zuckerberg, forstjóra Meta, kynnti frekari áform samstæðunnar um að draga úr kostnaði. Ný áætlun gerir ráð fyrir að kostnaður Meta í ár verði 5 milljörðum dala undir fyrri spá félagsins. Zuckerberg lýsti því jafnframt að árið 2023 yrði „ár skilvirkni“ hjá netrisanum, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Meta tilkynnti nýlega um að tæplega 11 þúsund starfsmönnum yrði sagt upp eða sem nemur 13% af stöðugildum samstæðunnar.

Tekjur Meta, sem á auk þess Instagram og WhatsApp, námu 32,2 milljörðum dala á fjórða ársfjórðungi. Það samsvarar 4% lækkun á milli ára en var engu að síður lítillega yfir spám greiningaraðila. Hagnaður félagsins var þó undir væntingum og nam 4,7 milljörðum dala, sem er meira en helmingslækkun frá fyrra ári.

Hækki hlutabréfaverð Meta um 19% í viðskiptum dagsins, líkt og það hefur gert í viðskiptum fyrir opnun markaða, þá mun markaðsvirði netrisans aukast um 76 milljarða dala.