Eftir að hafa meira en tvöfaldast í verðgildi síðan Pokemon Go leikurinn var gefinn út 6. júlí síðastliðinn lækkuðu hlutabréf Nintendo um 17,7% á mörkuðum í morgun.

Lækkunin kemur í kjölfar þess að fyrirtækið segir að þrátt fyrir gríðarlegar vinsældir tölvuleiksins muni tekjur af honum vera takmarkaðar. Leikurinn sem hannaður er af bandaríska fyrirtækinu Niantic, sem var áður hluti af Google, en leikurinn er hannaður í samstarfi við Nintendo og Pokémon fyrirtækið sjálft.

Nintendo á 32% hlut í Pokémon fyrirtækinu, auk 10% hlutar í Creatures, sem á önnur 33% í því. Jafnframt er talið að Nintendo eigi um 7% hluti í Niantic. Greinandinn David Gibson hjá Macquarie segir að Nintendo eigi því um 13% rauneign í leiknum.

Þrátt fyrir lækkunina sem sumir greinendur telja koma til af ofsaviðbrögðum sem muni jafna sig til baka á ný, þá hafa hlutabréf Nintendo hækkað um 60% síðan leikurinn kom út.