Danski skartgripaframleiðandinn Pandora hefur fallið um 65% eftir að markaðir opnuðu í dag. Uppgjör annars ársfjórðungs olli vonbrigðum. Endurheimtur Seðlabanka Íslands af láni sem veitt var Kaupþingi eru bundnar að nokkru leyti við virði Pandoru.

Mikkel Vendelin, forstjóri félagsins, var rekinn í dag og mun Allan Leighton, einn stjórnarmanna, taka við starfinu.

Endurheimtur Seðlabanka Íslands af láni sem bankinn veitti Kaupþingi í október 2008 með veði í danska bankanum FIH eru að miklu leyti bundnar við gengi bréfa í Pandoru. Sú tenging er tilkomin vegna þess að Seðlabankinn veitti seljendalán upp á um 67 milljarða króna þegar hann seldi FIH bankann í fyrra. Höfuðstóll lánsins mun lækka í takt við sölu eigna sem eru í fjárfestingasjóðnum Axcel III, sem er í eigu FIH. Langstærsta eign Axcel III er 7,4% hlutur í Pandoru sem hann má ekki selja fyrr en í október. Því er ljóst að fall bréfanna er þegar farið að hafa gríðarleg áhrif á mögulegar endurheimtur Seðlabanka Íslands.