Margir undrast á því hversu lítil glóra er stundum í sveiflum á gengi hlutabréfa: Einn daginn þjóta vísitölur upp og falla svo niður undan eigin þunga þann næsta án þess nokkur frétt útskýri flöktið.

Ný rannsókn vísindamanna við Cambridge-háskóla kann að varpa ljósi á þetta en hún sýnir fram á fylgni milli hagnaðar eða taps verðbréfamiðlara og testasterónmagns í líkamanum. Sálfræðingar telja þetta skýra hvers vegna markaðir virðast stundum sveiflast á órökréttan hátt.

Í rannsókninni mældu vísindamenn testasterónmagn í hópi miðlara sem starfa hjá fjármálafyrirtækjum í London. Í ljós kom að fylgnin var mikil á milli hvers vel eða illa þeim gekk með fjárfestingar sínar á hverjum degi og testasteróns í líkama þeirra.

Fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins, BBC, að vísindamennirnir telja að orsakasamhengið sé eftirfarandi: Því betur sem miðlurunum gengur því meira magn af testasteróni framleiða þeir og það leiðir svo til aukins sjálfsöryggis og áhættusækni, sem getur svo leitt til enn meiri hagnaðar af fjárfestingum.

Hinsvegar getur slíkt ástand á endanum dregið úr getu fjárfesta til þess að taka rökréttar ákvarðanir og leiða má líkum að því að það sé einmitt ástæðan fyrir að blöðrur myndast á hlutabréfamörkuðum. Þeir sem aðhyllast hagfræðikenningar um skilvirkni markaða eiga í vandræðum með að útskýra slíkt ástand á hlutabréfamörkuðum.

Hinsvegar hafa þeir sem aðhyllast svokallaða atferlishagfræði (e. behavioral economics) bent á að slíkar blöðrur séu algengar og geti varað lengi. Þeir síðarnefndu koma eflaust til með að fagna rannsókn vísindamannanna í Cambridge. BBC hefur eftir Joe Herbert, einn af aðstandendum rannsóknarinnar, að rannsóknin sýni að tilfinningar og hormónar hafi áhrif á fjárfestingaákvarðanir. Þær eru því ekki eingöngu drifnar áfram af gaumgæfilegri hagnaðargreiningu.

Vísindamennirnir skoðuðu einnig áhrif streituhormónsins cortisol á miðlara. Fram kom að áhrif þess hefur öfug áhrif við aukið magn af testasteróni: Á meðan að testasterónið eykur áhættusækni þá eykur cortisol áhættufælni miðlara. Þegar markaðir eru í niðursveiflu og efnahagshorfurnar verða dökkar þá eykst magn af cortisol í fjárfestum. Viðvarandi áhrif mikils magns af cortisol getur leitt til þess að fjárfestar verði fyrir barðinu á áunnu umkomuleysi.

BBC hefur eftir John Coates, vísindamanni sem jafnframt tók þátt í rannsókninni, að þegar slíkt gerist dugi ekki fyrir seðlabanka að lækka stýrivexti þar sem sálfræðilegt ástand miðlara gerir það að verkum að þeir fást engan vegin til þess að kaupa áhættusöm verðbréf. Hann segir að þegar ástandið á fjármálamörkuðum er eins og í dag sé nauðsynlegt að taka tillit til sálfræðilegra þátta við greiningu á mörkuðum.