Við samruna Kaupþings og Spron, sem tilkynnt var um fyrir stundu, fá hluthafar í SPRON 0,002007864 hluti í Kaupþingi og 0,305585106 hluti í Exista sem endurgjald fyrir hvern hlut að nafnverði ein króna í Spron.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar vegna sameiningar félaganna . Þá kemur fram að ekki verður greitt fyrir eigin hluti Spron.

Hluthöfum Spron mun standa til boða að skipta umræddum hlutum innbyrðis fyrir milligöngu Kaupþings án þóknunar í tvær vikur eftir uppgjör kaupverðsins, á markaðsverði á þeim tíma.

Í tilkynningunni segir að verðlagning svarar til skráðs lokagengis á hlutum í Kaupþingi og Exista þann 30. Júní 2008, eða 763 krónur fyrir hvernig hlut í Kaupþingi og 7,52 krónur, fyrir hvern hlut í Exista.

Endurgjald til hluthafa SPRON jafngildir því að 3,83 krónur verða greiddar fyrir hvern hlut í Spron og verður það greitt hluthöfum Spron eftir að skilyrði samrunans hafa verið uppfyllt.

Þá kemur einnig fram að Kaupþing hefur gert samning um kaup á 832.737.199 hlutum í Exista, annars vegar af Spron (340.965.708 hlutum) og hins vegar af Kistu-fjárfestingarfélagi (491.771.491 hlut), sem notaðir verða sem endurgjald í samrunanum og eru kaupin háð sömu skilyrðum og samruninn sjálfur.

Verð hlutanna í viðskiptunum er miðað við sama gengi og hér að ofan greinir, skráð lokagengi á hlutum í Exista þann 30. júní 2008, eða 7,52 krónur fyrir hvern hlut.