Hluthafar Spron hafa samþykkt samruna sparisjóðsins við Kaupþing, stærsta banka á Íslandi. Fáar hindranir standa nú í vegi þess að samruninn gangi í gegn. Fjármálaeftirlitið á eftir að leggja blessun sína yfir samrunann, og er hann einnig háður því að Samkeppniseftirltið ógildi hann ekki.

Alls var atkvæðafjöldi 3,5 milljarðar atkvæða og 570 milljón atkvæði voru greidd gegn samrunanum. 3 milljónir atkvæða voru auð eða ógild og handhafar 218 milljón atkvæða nýttu ekki atkvæðisrétt sinn. Tæplega 79% atkvæða voru því greidd með samrunanum.

Hluthafafundi Spron þar sem tillagan um samruna var lögð fram lauk rétt í þessu. Heitt var í hamsi á tímum á fundinum, sem stóð yfir í þrjár klukkustundir.

Hluthafar ekki allir sáttir

Erlendur Hjaltason, stjórnarformaður Spron ásamt Guðmundi Haukssyni, forstjóra hófu fundinn og gerðu í máli sínu grein fyrir kostum samrunans og samrunaáætluninni sem slíkri. Að þeirra máli loknu tóku hluthafar við og mikil gremja var í máli nokkurra þeirra. Ljóst er að margir hluthafa eru ósáttir með verðið, og talaði einn hluthafi m.a. um ósannindi af hálfu stjórnarmanna Spron í málinu. Lagði annar hluthafa til á fundinum að verði sameiningin að veruleika yrðu óánægðir hluthafar að ráða sér lögfræðing og leita réttar síns.

Stjórnarmenn Spron sögðu á fundinum að ákvörðun stjórnar Spron um að setja fram tillögu um samruna við Kaupþing væri ekki tekin á grundvelli neikvæðrar afkomu sparisjóðsins, heldur vegna afstöðu yfirvalda gagnvart smáum fjármálafyrirtækjum, samdrættinum sem framundan er og slæmum ytri aðstæðum. Einnig kom fram í máli þeirra að hagkvæmnissjónarmið lægju þar að baki. Sögðu stjórnarmenn að þeir teldu af heilum hug að hluthöfum og viðskiptavinum Spron væri betur borgið með samrunanum en ef Spron starfaði sem sjálfstæð eining. Þessi orð hafa greinilega fallið vel í kramið hjá hluhöfum, þrátt fyrir háværar gagnrýnisraddir inn á milli.

Eins og áður hefur komið fram fá hluthafar Spron greitt fyrir hlut sinn með bréfum í Kaupþingi og Existu. Ljóst er að mikil tengsl eru á milli Spron og Existu eins og Erlendur Hjaltason, stjórnarformaður Spron og annar forstjóra Existu, kom að í máli sínu.

„Saga Spron og Exista hefur verið samofin síðastliðin sjö til átta ár. Spron var leiðandi í stofnun Exista og meðal leiðandi hluthafa alla tíð. Góður árangur Exista á árunum 2001-2007 lagði meðal annars grunn að þeirri sterku stöðu sem Spron náði bæði fjárhagslega og markaðslega.“

Tæplega sex hundruð hluthafar sóttu fundinn, sem fór fram á Hilton Nordica hótelinu.