Konur standa aðeins að baki 29% hlutabréfaeignar í skráðum félögum en karlar eiga 57%. Hlutabréfaeign kvenna var til samanburðar 40% árið 2007 en karla 56%.

Dræm þátttaka kvenna á hlutabréfamarkaði er tilefni könnunar og átaks Kauphallarinnar um konur á hlutabréfamarkaði.

„Okkur þykir auðvitað alvarlegt mál ef helmingur mögulegra fjárfesta ætlar sér ekki að taka þátt á markaði,“ segir Kristín Jóhannsdóttir, samskipta- og markaðsstjóri Kauphallarinnar.

Hún vísar í könnun Viðskiptablaðsins frá árinu 2011 sem sýndi að aðeins um 4,7% kvenna höfðu hug á að kaupa hlutabréf á næstu 12 mánuðum samanborið við 17,5% karla. Þessa niðurstöðu segir hún hafa orðið tilefni til nánari athugunar.