Fjórum árum eftir að ríkið hljóp undir bagga fyrir General Motors og keypti hlut í fyrirtækinu fyrir tæplega 50 milljarða dollara er loks komið að því að ríkið losi sig við hlutinn. Tilkynning um söluna barst í gær frá fjármálaráðuneytinu en Timothy Geithner er fjármálaráðherra Bandaríkjanna.

Samkvæmt tilkynningunni hyggst ráðuneytið selja allan hlut sinn í fyrirtækinu en það nemur um 500 milljónum hluta í fyrirtækinu. 200 milljónir hluta verða seldir árið 2013 og 300 milljónir hluta yrðu seldir snemma árið 2014. Miðað við gengi hlutabréfa fyrirtækisins í dag munu skattgreiðendur tapa um 12 milljörðum dollara á sölunni.

Frá því að ríkið kom General Motors til bjargar hefur markaðshlutdeild fyrirtækisins á bandarískum bílamarkaði minnkað úr 22% í 18%.

Stjórnendur GM telja að salan á 32% hlut bandaríska ríkisins muni bæta móralinn í fyrirtækinu. Ríkið hefur sett ýmsar hömlur á stjórnendur, svo sem notkun einkaþotu fyrirtækisins og bónusar fyrir vel unnin störf.