Stjórn sam­fé­lags­miðilsins Truth Social, sem saman­stendur m.a. af Donald Trump Jr. og þremur ráð­herrum úr ríkis­stjórn Trump, mun á­kveða hversu mikið af hluta­bréfum í fé­laginu Donald Trump fyrr­verandi for­seti Banda­ríkjanna má selja á næstu vikum.

Á föstu­daginn síðast­liðinn á­kvað stjórn fé­lagsins að sam­einast sér­hæfða yfir­töku­fé­laginu (e. SPAC) Digi­tal World Acqu­isition Corp. en gengi DWA stendur í um 50 dölum um þessar mundir.

Miðað við það er markaðs­virði Truth Social 6,8 milljarðar Banda­ríkja­dala og er 60% hlutur Trump metinn á 4 milljarða dali, sem sam­svarar um 550 milljörðum króna á gengi dagsins.

Á­frýjunar­dóm­stóll í New York lækkaði í gær trygginguna sem Trump þarf að greiða vegna sektar í fjár­svika­máli úr 454 milljónum dala í 175 milljónir dala.

Trump þyrfti því ekki að selja nema brota­brot af hlutum sínum í Truth Social til að eiga fyrir tryggingunni en það er ó­mögu­legt að spá fyrir um hvað sölu­þrýstingur myndi gera fyrir gengið enda markaðs­virði fé­lagsins í engu sam­ræmi við undirliggjandi virði.

Um 400% hækkun frá skráningu

Digiti­al World Acqu­isition Corp er líkt og önnur sér­hæfð yfir­töku­fé­lög bara skel með enga starf­semi. Út­boðs­gengið í slíkum fé­lögum er á­vallt 10 dalir en gengið getur sveiflast veru­lega á meðan leitað er eftir fé­lagi til að sam­einast.

Eftir að DWA á­kvað að sam­einast Truth Social hafa stuðnings­menn Trumps verið að kaupa bréf til þrýsta genginu upp. Gengi fé­lagsins hefur nú hækkað um 400% frá því það fór á markað í októ­ber 2021.

Gengi félagsins hefur hækkað um 13% í viðskiptum dagsins.

Auðkennið DJT á Nasdaq

Fyrsti við­skipta­dagur með hluta­bréf hins sam­einaða fé­lags er í dag og verður auð­kennið DJT sem eru upp­hafs­stafir for­setans fyrr­verandi.

Sam­kvæmt WSJ hefur Truth Social tapað tugum milljónum dala frá því að sam­fé­lags­miðillinn hóf göngu sína.

Heildar­tekjur fé­lagsins frá stofnun eru um 5 milljónir dala og því má segja að 6,8 milljarða dala markaðs­virði fé­lagsins sé í engu sam­ræmi við raun­virði fé­lagsins.

Af þeim sökum gæti það reynst Trump erfitt að fá lán gegn veði í bréfinu þar sem á­byrgðar­aðili lánsins myndi þurfa að taka á sig veru­lega á­hættu þar sem það er með öllu ó­víst hvert gengi fé­lagsins stefnir.

Sam­kvæmt venju ætti honum að vera meinað að selja bréf næstu sex mánuðina en stjórn Truth Social gæti veitt honum undan­þágu sem líkt og fyrr segir er sam­sett af fjöl­skyldu og vinum.