*

föstudagur, 28. janúar 2022
Erlent 1. október 2020 18:06

H&M lokar verslunum og herjar á netsölu

Á þriðja ársfjórðungi dróst sala H&M saman um 16% en félagið hyggst loka 250 verslunum.

Ritstjórn
epa

Næst stærsta fatakeðja heims, Hennes & Mauritz, hyggst loka um 250 verslunum á næsta ári en alls rekur félagið um 5.500 búðir. Forstjóri H&M, Helena Helmersson, segir að félagið muni standa betur að vígi eftir að heimsfaraldurinn er yfirstaðinn en fyrir hann. Félagið hyggst auka áherslu sína á netverslun.

Segir Helmersson að í framtíðinni geti hluti af núverandi búðum H&M verið notaðar meðal annars sem dreifileið fyrir netsölu keðjunnar. Umfjöllun á vef Financial Times.

Félagið birti árshlutauppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í dag. Þar kemur fram að sala H&M dróst saman um sextán prósent milli ára á þriðja ársfjórðungi, sem er frá og með júní til september, en um fimm prósent í september. Hagnaður félagsins eftir skatta nam um 28 milljörðum króna á fjórðungnum. Það sem af er ári hefur félagið tapað tæplega tuttugu milljörðum króna.

Þegar faraldurinn stóð sem hæst voru fjórar af hverjum fimm búðum H&M lokaðar. Í upphafi þriðja ársfjórðungs voru um 900 búðir lokaðar sökum áhrifa af kórónufaraldrinum en um 166 búðir eru lokaðar í dag. Hlutabréf félagsins hafa hækkað um ríflega sex prósentustig í viðskiptum dagsins en markaðsvirði þess er 303 milljarðar Bandaríkjadala.

Um fjórðung af alls 5.000 verslunum keðjunnar munu endursemja leigusamninginn sinn og ætlar félagið að nýta tækifærið og loka 250 búðum.  

Stikkorð: H&M netsala