Theo Hoen, fyrrverandi forstjóri Marels, fékk fúlgur fjár greiddar þegar hann hætti hjá fyrirtækinu í haust. Fréttablaðið greinir frá því að í ársuppgjöri Marels vegna 2013 kemur fram að tvær milljónir evra, eða um 314 milljónir króna, hafi farið í breyttar stjórnunarstöður hjá fyrirtækinu.

Blaðið segir að stærstur hluti upphæðarinnar hafi verið greiddur vegna starfsloka Hoens. Hoen hafði unnið hjá félaginu í 28 ár og endurspeglar það uppgjörið, að sögn Ásthildar Otharsdóttur, stjórnarformanns Marels. Hoen hafði verið forstjóri frá 2009.

„Í sumum löndum þar sem við störfum eru réttindi starfsmanna talsvert umfangsmeiri en við þekkjum héðan. Í Hollandi er það þumalputtaregla að fólk ávinni sér einn mánuð fyrir hvert ár sem það starfar. Svo á það uppsafnað frí og annað slíkt,“ segir Ásthildur meðal annars í samtali við Fréttablaðið.