Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands segir að vera Íslands á svokölluðum gráa lista FATF samtakanna hafi mögulega leitt til þess í einhverjum tilfellum að greiðslur hjá viðskiptabönkum hafi tafist, sem og að erlendir bankar hafi hafnað því að hafa milligöngu um greiðslur til og frá landinu.

Í svörum einhverra aðila hafi jafnframt komið fram að erfitt væri að greina á milli þess hvort viðbrögð erlendu aðilanna mætti rekja til veru Íslands á lista samtakanna, eða til almennt aukinnar árvekni gagnvart peningaþvætti.

FATF er alþjóðlegur fjármálaaðgerðarhópur ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka en listinn umtalaði nær yfir ríki sem eru samvinnufús og með aðgerðaráætlun um endurbætur sinna mála í farvegi.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma var Ísland sett á listann við endurskoðun hans í október þrátt fyrir athugasemdir stjórnvalda, sem síðan hafa gripið til margháttaðra aðgerða til að tryggja að þetta hafi ekki áhrif á greiðsluflæði og traust til fjármálastofnana í landinu.

Eftir að FME óskaði upplýsinga í lok desember frá 16 eftirlitsskyldum aðilum komu þessi áhrif á viðskiptabankana í ljós, en þvert á móti virðist engin áhrif hafa orðið á starfsemi vátryggingaraðila, lífeyrissjóða, Kauphallarinnar og verðbréfamiðstöðvarinnar.

Í umfjöllun á vef Seðlabankans kemur þó fram að í nokkrum tilfellum hafi verið óskað eftir frekari skýringum og eða upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum í tengslum við aukna áreiðanleikakönun.