Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að neitun héraðsdómara á gæsluvarðhaldskröfu yfir Elmari Svavarssyni, verðbréfamiðlara hjá Íslandsbanka og áður Glitni, hafi ekki áhrif á stýringu á rannsókn embættisins. Niðurstaða dómara sé þó skoðuð að öllu leyti. Dómarinn hafnaði gæsluvarðhaldi á þeim forsendum að ekki lægi rökstuddur grunur um að Elmar væri aðili að því broti sem er til rannsóknar, þar sem hann var ekki yfirmaður.

Þann 1. desember fór sérstakur saksóknari fram á gæsluvarðhald yfir Elmari og þremur öðrum, þeim Jóhannesi Baldurssyni, fyrrum framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Glitnis, Lárusi Welding, fyrrum forstjóra bankans, og Inga Rafnari Júlíussyni, sem starfaði hjá Glitni fyrir hrun og er nú hjá MP banka. Rannsókn málsins snýr að meintri markaðsmisnotkun Glitnis fyrir fall hans. Dómari féllst á gæsluvarðhald yfir öllum nema Elmari.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.