Ákvörðun innanríkisráðuneytis að hafna beiðni kínverska auðmannsins Huang Nubo um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum er þvert á skoðun stjórnarliða í Samfylkingunni. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, Kristján L. Möller, þingmaður NA-kjördæmis, Magnús Orri Schram og fleiri þingmenn hafa verið fylgjandi jarðasölunni.

Ekki hefur náðst í þingmenn Samfylkingarinnar vegna ákvörðunar innaríkisráðuneytis. Þingflokkurinn situr nú á fundi. Ekki liggur fyrir hvert fundarefnið er.

Árni Páll sagði í samtali við netútgáfu Viðskiptablaðsins fyrir hálfum mánuði það ekki vera á færi þingmanna að ákveða hversu mikið land einkaaðilar hér á landi vilji selja.

Daginn áður hafði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna lýsti því yfir á Alþingi að það hringdi engum sérstökum hrifningarbjöllum hjá sér að utanaðkomandi aðilar og útlendingar færu að kaupa hér stór lönd.

Árni Páll sagði í samtali við Viðskiptablaðið nú unnið að undirbúningi skýrrar stefnu um erlenda fjárfestingu og lagabreytingum í kjölfar hennar. „Það er mikilvægt að regluverkið og umgjörðin sé skýr og ótvíræð og að bæði innlendir sem erlendir fjárfestar viti að þeir standi jafnir gagnvart lögum,“ sagði hann. Í nýrri efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar kemur fram að að bein erlend fjárfesting sé mikilvæg til að örva efnahagslífið við núverandi aðstæður.