Tim Sweeney, stofnandi og framkvæmdastjóri tölvuleikjaframleiðandans Epic Games, sem gefur út tölvuleikinn Fortnite , segir Google hafa verið óábygt þegar það opinberaði á föstudag galla í uppsetningarhugbúnaði snjallsímaútgáfu leiksins, sem tölvuþrjótar gætu nýtt sér.

Forsaga málsins er sú að Epic Games kaus að gefa snjallsímaútgáfu leiksins út beint, með eigin uppsetningarhugbúnaði, frekar en að selja hann í snjallforritaverslun Google, Play store. Google gefur út snjallsímastýrikerfið Android, sem flestir snjallsímar nota, og með því fylgir netverslunin Play store, sem lang flestir nota til að kaupa, selja, og sækja ókeypis snjallforrit.

Epic Games ákvað hinsvegar að sniðganga verslunina til að sleppa við að greiða Google hlutdeild í sölutekjum, en Google tekur 30% af sölutekjum þeirra forrita sem seld eru gegn um verslunina, bæði greiðslum fyrir að eignast snjallforrit, og greiðslum innan forritanna sjálfra. Hægt hefur verið að spila Fortnite ókeypis frá upphafi, en fyrirtækið hefur hinsvegar haft gríðarlegar tekjur af sölu stafrænna vara innan leiksins, svo sem ýmisskonar klæðnaðar og öðru útlitstengdu.

Fyrirtækið neyðist hinsvegar til að gangast undir samskonar skilmála og hlutdeild í söluhagnaði hjá snjallforritaverslun Apple, App store, þar sem ekki er hægt að setja upp snjallforrit á iPhone-síma öðruvísi en í gegn um hana.

Sweeney segir í tísti um málið Epic Games hafa beðið Google um að bíða með tilkynninguna þangað til uppfærsla sem lagfærði veikleikann hefði náð til fleiri notenda. „Þeir neituðu, og settu þar með Android-notendur í óþarfa áhættu, til þess eins að líta betur út.“

Net-öryggissérfræðingar benda þó á að hægt sé að rífast endalaust um hvenær nákvæmlega sé rétti tíminn til að upplýsa um svona mál, þegar allt komi til alls geti fyrirtækið þó sjálfu sér um kennt fyrir að hafa valið þessa leið.

Talsmaður Google neitaði að tjá sig um málið við BBC , en í verklagsreglum Google í svona málum segir að allar upplýsingar skuli opinberaðar að 90 dögum liðnum frá því gallinn uppgötvaðist, eða fyrr ef „uppfærsla hefur verið gerð almennt aðgengileg“.