Fyrir helgi birti Isavia í fyrsta sinn uppfærða farþegaspá eftir fall Wow og samkvæmt henni kemur erlendum ferðamönnum til með að fækka um 16,5% á þessu ári. Fyrstu fjóra mánuði ársins fækkaði erlendum ferðamönnum um 8% miðað við sama tímabil í fyrra, að því fram kemur í tölum frá Ferðamálastofu. Í þeim hagspám sem birtar hafa verið eftir ósköpin í flugrekstri vetrarins er gert ráð fyrir að fækkun erlendra ferðamanna verði í besta falli 10% (Seðlabankinn) og í versta falli 16% (Arion banki).

Vegna þess hve mikið skilur á milli í þeim farþegaspám sem nú liggja fyrir var beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir að Isavia birti endurskoðaða farþegaspá fyrir árið 2019. Isavia er sagt byggja spár sínar á betri gögnum en aðrir greinendur og standa vonir til um að ný spá kveði úr um óvissuna. Niðurstaðan virðist á þann veg að útlitið er svartara en svartsýnasta hagspáin reiknaði með.

Gjaldþrot Wow átti sér stað í lok mars og þrátt fyrir að flugfélagið hafi flogið færri ferðir á fyrsta fjórðungi miðað við árið á undan komu áhrif gjaldþrotsins ekki að fullu fram fyrr en í apríl. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands fækkaði erlendum ferðamönnum um 19% í apríl miðað við sama mánuð á síðasta ári. Samtals lögðu 106 þúsund ferðamenn leið sína til landsins í síðasta mánuði samanborið við 131 þúsund í apríl 2018. Þetta er mesta fækkun erlendra farþega milli ára sem mælst hefur frá því að talningin í núverandi mynd hófst fyrir tveimur áratugum.

Vonir stóðu til um að maímánuður yrði skárri þar sem önnur flugfélög hefðu þá getað brugðist við falli Wow og fyllt upp í framboðskarðið sem gjaldþrotið skapaði. Þetta gekk ekki eftir því fækkun ferðamanna reyndist þvert á móti meiri eða tæp 24%. Heildarvelta erlendra greiðslukorta á Íslandi í apríl 2019 nam 14,6 ma.kr., sem jafngildir 20,1% lækkun frá því í fyrra. Kortaveltan í maí síðastliðnum var næstum sú sama og hún var í sama mánuði árið 2016. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins hefur veltan greiðslukorta dregist saman um tæp 5% miðað við sama tíma á síðasta ári og um 15% frá árinu 2017.

Fall Wow markar þannig meiri viðsnúning í fyrstu gögnum um farþegafjölda og  gjaldeyrisveltu en reiknað var með í hagspám. Og spurning vaknar um hvaða þýðingu vanmat greinenda á áhrifum breyttrar stöðu í flugsamgöngum hefur á spár þeirra um hagvöxt og gengi íslensku krónunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .