Kjölur fjárfestingarfélag hagnaðist um ríflega 1,6 milljarða króna á árinu 2017 samanborið við 187 milljóna hagnað árið áður. Stærstan hluta hagnaðar félagsins má rekja til tekna af sölu og verðbreytingum hlutafjáreignar sem nam 1.467 milljónum króna en félagið seldi á síðasta ári 38,8% hlut í Greenqloud til Bandaríska Fortune 500 fyrirtækisins NetApp. Nam heildarkaupverðið 51 milljón dollara sem þýðir að Kjölur hefur fengið tæpar 20 milljónir dollara í sinn hlut eða því sem nemur ríflega 2,1 milljarði króna sé miðað við gengi dollars þegar viðskiptin fóru fram í ágúst síðastliðnum.

Eignir félagsins námu tæplega 2,5 milljörðum króna í lok árs á meðan skuldir námu 187 milljónum. Kjölur á meðal annars félagið Íslensk Orkuvirkjun, Gagnavörsluna ehf. og hlut í sprotafyrirtækinu Solid Clouds. Kjölur er í eigu þeirra Þorláks Traustasonar og Guðmundar Inga Jónssonar en báðir eiga þeir helmingshlut í félaginu.