Einn ríkasti maður heims, Carlos Slim, er sonur líbanskra innflytjenda í Mexíkó. Margir landar hans telja hann táknmynd fákeppni sem nýti sér ofurstöðu til að okra á viðskiptavinum og kúga samkeppnisaðila, aðrir Mexíkóar eru stoltir af árangri hans og velmegun. Hann er dyggur fjölskyldumaður og jafn nægjusamur í einkalífinu og hann er djarftækur í viðskiptum.

Ég var grjótharður strákur,“ sagði mexíkóski milljarðamæringurinn Carlos Slim Helú í viðtali við The New Yorker fyrir átta árum – og flest bendir til að hann hafi haldið hörkunni á þeim áratugum sem liðnir eru síðan hann óx úr grasi í Mexíkóborg. Slim er nú orðinn 76 ára og tilkynnti fyrir nokkru að hann væri búinn að ákveða arftaka sinn að gríðarstóru veldi sem teygir sig yfir alla Mið- og Suður Ameríku og hefur anga víðar um heim. Persónuleg auðlegð hans er metin á rúma 54 milljarða dollara samkvæmt seinasta auðjöfralista Forbes, en þar situr hann í sjötta sæti á eftir Zuckerberg.

Útþanið fjölskyldufyrirtæki

Í raun hefur Slim seinustu tuttugu árin, eða síðan hann fór í hjartauppskurð árið 1997, hægt og rólega dregið úr daglegum afskiptum af hinum mörgu fyrirtækjum í hans eigu. Þess í stað hafa synir hans þrír og tengdasynir, og fyrr á þessu ári skipaði hann rúmlega tvítuga dóttursyni sína í stjórnir tveggja fyrirtækjanna, tekið við rekstrinum. V

eldi Carlos Slim má með sanni kallast útþanið fjölskyldufyrirtæki þar sem hann trónir á tindinum og vakir yfir gjörðum afkomendanna. Slim er dyggur kaþólikki og hefur í heiðri gamalgróin fjölskyldugildi. Börn hans heimsækja hann hvern mánudag til að snæða málsverð, þau hittast oft heima hjá honum um helgar til að horfa á íþróttir og alla miðvikudaga býður hann barnabörnunum, 23 talsins, í hádegismat.

Látlaus og aðsjáll listaverkasafnari

Nægjusemi og naumhyggja varð hluti af ímynd sem hann skapaði áratugum saman, hann mætti t.d. um langt skeið á fundi með ódýrt tölvuúr um úlnliðinn. Hann á hins vegar ekki tölvu og kveðst ekki kunna á tölvur. Hann þykir sparsamur og berst lítið á, er t.d. eini mexíkóski milljarðamæringurinn á auðjöfralista Forbes sem á ekki heimili í Bandaríkjunum. Seinustu fjörutíu ár hefur Slim búið í látlausu húsi í Lomas de Chapultepec-hverfinu í Mexíkóborg og þar er að finna skrifstofu hans í litlu herbergi með skrifborði og hillum troðnum af sagnfræðilegum verkum og ævisögum.

Það eina sem bendir til ríkidæmis eigandans eru listaverkin á veggjunum, þar á meðal málverk eftir El Greco. Hann keyrir oftast bíl sinn sjálfur, sem þykir sérvitringsleg hegðun hjá milljarðamæringi eða jafnvel hreinræktuð fífldirfska í landi með jafn háa mannránstíðni og Mexíkó en á eftir fylgir bifreið full af lífvörðum. Slim forðast líka mikla og bruðlkennda yfirbyggingu fyrirtækja sinna, meira að segja höfuðstöðvar América Móvil eru til húsa í byggingu sem áður var dekkjaverksmiðja.

Feiminn og með lélega kímnigáfu

Fyrir utan mikla tryggð við fjölskylduna þykir hann einfari sem forðast opinbera viðburði. Hann gengur í fötum frá eigin verslunarkeðju og nýtir þau yfirleitt þangað til þau eru útslitin. „Hann er ömurlegur ræðumaður, feiminn og með lélega kímnigáfu,“ lýsti mexíkóskur sjónvarpsmaður honum eitt sinn. Hann á sér fá áhugamál utan starfsins, en þó má nefna hafnarbolta, sem höfðar ekki síst til hans vegna ástríðu hans fyrir tölfræði. Hann heldur með New York Yankees.

Braskað og brallað í byltingunni

Slim hefur helgað lífi sínu auðsöfnun frá unga aldri og þakkar föður sínum velgengni sína. Faðir hans, sem hét upphaflega Khalil Salim Haddad Aglamaz, var aðeins fjórtán ára gamall og einn á ferð þegar hann steig á land í borginni Veracruz árið 1902. Hann hafði ferðast einsamall alla leið frá litlu líbönsku þorpi, Jezzine, til að flýja herskyldu í ríki Ottómanna.

Eldri bræður hans höfðu þegar tekið sér bólfestu í borginni og opnað smásöluverslun. Khalil Salim Haddad breytti nafni sínu í Julían Slim Haddad til að falla betur í kramið í þjóðfélaginu og auðgaðist vel á verslunarrekstri og fasteignabraski, sérstaklega á ólgutímum mexíkósku byltingarinnar.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .