Nemendur Hólabrekkuskóla fá spjaldtölvur frá Nýherja í tengslum við samvinnuverkefni á vegum Hólabrekkuskóla, Upplýsingatæknideildar Reykjavíkurborgar, Skóla- og frístundasviðs og Nýherja.

Hólabrekkuskóli hefur unnið að þróun kennsluefnis fyrir verkefnið í rúmlega ár. Nú hyggst skólinn prófa þrjár gerðir af Samsung spjaldtölvum.

Um er að ræða 75 spjaldtölvur fyrir nemendur í níunda bekk og kennara þeirra sem verða prófaðar til að leggja mat við val á búnaði til framtíðar.

„Við óskum Hólabrekkuskóla til hamingju með áfangann. Ljóst er að skólar munu á komandi árum reiða sig meira á spjaldtölvur í kennslu enda hefur komið í ljós að slíkur búnaður er til þess fallinn að ýta undir áhuga nemenda á ýmsum viðfangsefnum, auka gæði náms, létta byrðar nemenda vegna námsbóka og draga úr ýmis konar prentkostnaði til lengri tíma. Nýherji býr yfir háu þekkingarstigi á kröfum notenda á þessu sviði og þeim tæknilausnum sem til eru fyrir skólaumhverfið. Við hlökkum því til að þróa verkefnið áfram með skólanum,” segir Emil Einarsson framkvæmdastjóri Vörusviðs Nýherja.