Hollensk stjórnvöld eru tvísaga þegar kemur að ríkisábyrgð á innstæðum banka, að sögn Ragnars F. Ólafssonar, sem er í InDefence hópnum. „Hollendingar eru aðilar að Icesave-málinu gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum, en dóms í málinu er að vænta á mánudaginn. Það mál snýst í grunninn um það hvort íslenska ríkið eigi að bera ábyrgð á innstæðum íslenskra banka í útlöndum. Afstaða Hollenskra stjórnvalda er hins vegar allt önnur þegar kemur að hollenskum bönkum.“

Vísar Ragnar þar til svars þáverandi fjármálaráðherra Hollands við fyrirspurn þingmanns. „Þetta var árið 2010, þegar Jan Kees de Jager var fjármálaráðherra. Hann var spurður út í auglýsingar netbankaþjónustu Rabobank utan Hollands, þar sem því var haldið fram að hollenska ríkið bæri ábyrgð á innstæðum í bankanum. Svar ráðherrans var einfalt. Það væri hollenska bankakerfið sem greiddi allan kostnað vegna innstæðuytrygginga í Hollandi, en ekki hollenska ríkið. Þetta er áhugaverð afstaða sem þarna kemur fram í svari ráðherrans í ljósi þess hversu hart Hollendingar sækja að okkur Íslendingum og vilja að íslenska ríkið ábyrgist allar innstæður á Icesave-reikningum Landsbankans.“