*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 14. apríl 2011 07:31

Holyoake eignast Iceland Seafood

Félag í eigu Marks Holyoake mun eignast allt hlutafé í Iceland Seafood International á allra næstu vikum.

Þórður Snær Júlíusson
Helgi Anton Eiríksson er forstjóri Iceland Seafood Internatonal. Íslenskir eigendur þess eru á leið út úr eigendahópnum.
Aðsend mynd

Félag í eigu Marks Holyoake, International Seafood Holdings SARL, mun eignast allt hlutafé í Iceland Seafood International (ISI) á allra næstu vikum. Félagið samdi um kaup á hlut 73,1% hlut Kjalars ehf., félags Ólafs Ólafssonar, í ISI í janúar í fyrra en hefur ekki fengið hlutabréfin afhent. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að samhliða kaupunum hafi verið samið um að minni hluthafar, félag í eigu Benedikts Sveinssonar, fyrrum framkvæmdastjóra ISI, og Bjarni Benediktsson, framkvæmdastjóri Iceland Seafood á Íslandi, myndu selja Holyoake hluti sína í fyrirtækinu. Samanlagt áttu þeir tæplega 27%.

Stefnt er að því að ljúka málinu á næstu fjórum vikum og fyrrum eigendur munu í kjölfarið slíta öll tengsl við ISI. Vert er að taka það fram að umræddur Bjarni Benediktsson er ekki formaður Sjálfstæðisflokksins og umræddur Benedikt Sveinsson er ekki faðir þess formanns.

Samið á sama tíma

Tilkynnt var um að Kjalar ætlaði að selja eignarhlut sinn í ISI á seinni hluta árs 2009. Í febrúar 2010 var síðan greint frá því í íslenskum fjölmiðlum að félag í eigu Marks Holyoake hefði eignast 73,1% hlut í fyrirtækinu sem Kjalar hafði áður átt. Eignarhluturinn var þó ekki afhentur á þeim tíma heldur samdist um að Holyoake fengi hann afhentan þegar fullnaðargreiðsla lægi fyrir.

Á þeim tímapunkti var ekki tilkynnt um neitt annað en að aðrir hluthafar, Benson ehf. (eignarhaldsfélag Benedikts Sveinssonar) og Bjarni Benediktsson myndu halda áfram á sínum eignarhlut, en hann er samtals um 27%. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gerði Holyoake þó samkomulag við þá á sama tíma um að þeir seldu eignarhluti sína til hans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.