Japanski bílaframleiðandinn Honda hefur verið sektaður um 70 milljónir Bandaríkjadala, jafngildi um níu milljarða íslenskra króna, af stjórnvöldum í Bandaríkjunum. BBC News greinir frá þessu.

Sektin kemur til vegna þess að bílaframleiðandanum láðist að tilkynna stjórnvöldum um dauðaslys, sem og önnur slys, sem hefðu orðið í bifreiðum fyrirtæksins. Er um að ræða stærstu sekt sem lögð hefur verið á bílaframleiðanda af bandarískum stjórnvöldum.

Tilvikin sem fyrirtækið tilkynnti ekki voru 1.729 talsins og áttu sér stað milli júlímánaðar 2003 og júnímánaðar 2014. Fyrirtækið hefur nú gefið út að það muni breyta verkferlum vegna málsins.