Formenn félaga innan ASÍ komu saman til fundar á fimmtudagsmorgun til að ræða forsendur kjarasamninga en fyrri endurskoðun kjarasamninganna á að vera lokið 20. Janúar nk.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði í samtali við Viðskiptablaðið, sem kom út á fimmtudagsmorgun, að helstu forsendur kjarasamningsins séu að kaupmáttur launa aukist, að verðlag haldist stöðugt og að gengi krónunnar styrkist. Þá sagði Gylfi að stjórnvöld þyrftu jafnframt að standa við gefin fyrirheit í efnahags-, atvinnu-, og félagsmálum.

„Allar efnislegar forsendur milli okkar og atvinnurekenda hafa staðist að mestu,“ sagði Gylfi.

„Hins vegar er margt sem stendur út af varðandi samkomulagið við stjórnvöld.“

Hann sagði þó að nýlegar breytingar á ríkisstjórn gefi til kynna að Steingrímur J. Sigfússon ætli sér að lyfta grettistaki í atvinnumálum og það lofi góðu.

Á fyrrnefndum formannafundi fór Gylfi yfir stöðu mála nú sléttum átta mánuðum eftir undirritun kjarasamninganna. Fjallað er um erindi Gylfa á vef ASÍ. Í máli hans kom fram að meginforsenda samninganna hefur staðist, þ.e. kaupmáttur hefur aukist. Há verðbólga er hins vegar áhyggjuefni eins og lítil styrking krónunnar. Spár gera þó ráð fyrir að verðbólga lækki hratt með vorinu.

Það kom hins vegar fram í máli Gylfa að sérstakt áhyggjuefni væri það sem snýr að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem var gerð í tengslum við kjarasamningana. Þar hallar verulega á stjórnvöld og vissulega tilefni til að segja upp kjarasamningum að mati forseta ASÍ. Ber þar hæst svik um að hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysisbóta verði í takt við launahækkanir 1. febrúar nk. og skattlagningu á lífeyrissjóði á almennum markaði sem þýðir að óbreyttu skerðingu lífeyris félagsmanna ASÍ.