„Þetta er mjög harkalegt og það er ástæða til. Ég er sannfærður um að ákvörðun sem þessi er ekki tekin af neinni léttúð. Mikið þarf að ganga á til að það gerist,“ segir lögmaðurinn Hörður Felix Harðarson. Hann er verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, í Al Thani-málinu. Hann hefur rætt málin við Hreiðar Má og þeir tekið þá ákvörðun að hann verji hann áfram. Þeir Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall, verjendur Sigurðar Einarsson, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, og Ólafs Ólafssonar, sem báðir eru sakborningar í Al Thani-málinu, hafa báðir sagt sig frá málinu. Karl Axelsson, verjandi Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, mun jafnframt ætla að vinna áfram fyrir skjólstæðing sinn í málinu.

Þeir Gestur og Ragnar sögðu á blaðamannfundi í dag þar sem þeir tilkynntu um ákvörðun sína hana byggjast á því að þeir telji rétt skjólstæðinga sinna til réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis við ákæruvaldið við meðferð málsins hafa ítrekað verið þverbrotinn.

Hörður Felx segir í samtali við vb.is hafa fullan skilning á ákvörðun þeirra Gests og Ragnars.

„Ég tek í einu og öllu undir þær alvarlegu athugasemdir sem þeir hafa sett fram. Við rannsókn málsins og rekstur þess fyrir dómi hefur ítrekað verið brotið gegn þeim leikreglum sem settar eru og eiga að vera varðar bæði af sakamálalögum og grundvallarreglum í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála,“ segir hann og bendir á að skiljanlegt sé að menn hafni því að taka þátt í að gefa þessari málmeðferð það yfirbragð að réttindi sakborninga séu virt.