Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, var með tæpar 1,6 milljónir króna í laun og hlunnindi á mánuði í fyrra. Þetta gera rétt tæpar 19 milljónir króna á ári. Laun Harðar eru gefin upp í dollurum í ársreikningi Landsvirkjunar. Þar eru þau sögð 168 þúsund dalir í fyrra samanborið við 140 dali árið 2012. Þetta jafngildir 20% launahækkun á milli ára í dölum talið. Hörður fær borgað í krónum.

Í ársreikningi Landsvirkjunar kemur sömuleiðis fram að laun fimm framkvæmdstjóra og aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar námu samtals 998 þúsund dölum í fyrra samanborið við 948 þúsund dali árið 2012. Það gerir samtals 107,2 milljónir króna eða rétt tæplega 1,5 milljónir króna að meðaltali á mann.

Þá námu laun stjórnar Landsvirkjunar 95 þúsund dölum í fyrra og hækkuðu þau um 11 þúsund á milli ára. Þetta jafngildir 13% hækkun á milli ára.