Í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu verður ekki komist hjá því að spyrja Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, um pólitísk afskipti af fyrirtækinu. Landsvirkjun er jú ríkisfyrirtæki og oft tekist á um stefnu fyrirtækisins á pólitískum vettvangi. Það er því full ástæða til að spyrja Hörð hvort það sé alltaf hægt að greina hvar pólitíkin endar og hvar viðskiptin byrja og öfugt.

„Það er nokkuð skýrt í tilfelli Landsvirkjunar,“ svarar Hörður að bragði.

„Stjórn Landsvirkjunar starfar einungis með hagsmuni fyrirtækisins að leiðarljósi og það er hennar hlutverk. Hún er ekki framhald af stjórnvöldum eða stjórnmálaflokkunum og má ekki vera það. En auðvitað mótast fyrirtæki sem er að vinna með náttúruauðlindir alltaf af stjórnvöldum hvers tíma að einhverju leyti. Það fer ekki gegn stefnu stjórnvalda. En ábyrgð stjórnar og forstjóra Landsvirkjunar er mjög mikil og þetta fólk þarf alltaf að vinna samkvæmt sinni sannfæringu. Lögin um fyrirtækið eru nokkuð skýr og við berum ótakmarkaða ábyrgð á okkar ákvörðunum, jafnvel persónulega.“

En hefur þú orðið var við eða orðið fyrir pólitískum þrýstingi í þessu starfi?

„Maður finnur fyrir pólitískri umræðu, t.d. á Alþingi, og ég verð var við hana eins og aðrir, en ég hef ekki orðið var við pólitískan þrýsting í gegnum eigendavald,“ segir Hörður.

„Við höfum þó kallað eftir eigendastefnu og vonandi er verið að vinna að henni. Hún markast sjálfsagt af einhverri pólitík, en það væri æskilegt að hún héldist óbreytt sama hverjir eru við völd hverju sinni. Við sjáum til dæmis í Noregi að þar hefur norska ríkinu tekist vel til með sín fyrirtæki, t.d. Statkraft og Statoil. Eigendastefna fyrirtækjanna breytist ekki þó svo að það verði breytingar í stjórnmálunum þar. Það gengi heldur ekki upp til lengri tíma þar sem fyrirtækið starfar á samkeppnismarkaði og er því undir smásjá eftirlitsaðila.“

Nánar er rætt við Hörð í viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fer hann yfir helstu verkefni og áherslur Landsvirkjunar, möguleikana á nýtingu vindorku, áhrif þess að leggja sæstreng og selja þannig orku til Evrópu og fleira. Þá tjáir Hörður sig einnig um 25 ára starfsferil sinn hjá Marel.