„Þetta var nánast jafntefli, 46-48,” sagði Hörður Arnarson annar maður á A-lista sem boðinn var fram gegn lista stjórnar BYRs á aðalfundi í dag. “Það voru auðu atkvæðin sem réðu úrslitum, en svona er bara lýðræðið.”

Aðalmenn B-lista eru Jón Kr. Sólnes, Guðmundur Geir Gunnarsson, Matthías Björnsson, Sigrún Hallgrímsdóttir og Þorsteinn Ólafur Þorsteinsson, en Erla Gísladóttir er í varafulltrúi.

Tilkynnt var um það á þriðjudag að Gísli Þór Sigurbergsson sem áður hafði átt sæti á listanum í aðalstjórn hafi dregið framboð sitt til baka. Hefur hann lýst því í fjölmiðlum að ástæðan hafi verið óánægja með skipun á listanum og tengingar við fyrri stjórnendur.

Hörður segist reyndar hafa komið mjög seint að myndun A- lista en auðvitað séu þeir sem að honum stóðu ekki sáttir við þessa niðurstöðu. Hann segir að þar sem kosningin var leynileg þá sé engan veginn hægt að spá í hver hafi átt auðu atkvæðin í kosningunni. Á A-lista buðu sig fram í aðalstjórn þau Sveinn Margeirsson, Arnar Bjarnason, Hörður Arnarson, Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Ingunn Guðmundsdóttir. Í framboði til varastjórnar af A-lista voru Stefán D. Franklín og Eggert Þór Aðalsteinsson.

„Þetta var mjög góður málstaður og að sjálfsögðu taldi maður að hann hefði meira fylgi. Það var mjög virðingarvert framtak þessara hjóna (Sveins Margeirssonar og Þórunnar Rakelar Gylfadóttur). Þetta er fólk er bara drifið áfram af réttlætiskennd og vilja til breytinga. Það var mjög ómaklegt hvernig ákveðnir fjölmiðlar sem tengjast ákveðnum eigendum fjölluðu um þeirra mál. Ég hefði aldrei trúað svona á fjölmiðla áður. Það var ótrúlegt hvernig þeir fjölluðu t.d. um mál er snerti Landsbankann og var í raun ekkert mál.”

Hann segir mikla gagnrýni hafa komið fram á fundinum á störf fyrri stjórnar. Þá hafi komið fram að 10 stærstu skuldarar Byrs hafi verið ábyrgir fyrir 70% af afskriftinni, en Byr tapaði rúmum 29 milljörðum á síðasta ári.

„Það var ekkert upplýst hverjir þessir tíu stærstu skuldarar eru og borið er við bankaleynd.”