„Uppgjör fyrsta ársfjórðungs er nokkuð undir  væntingum,“ segir bankastjórinn Höskuldur H. Ólafsson um uppgjör Arion banka á fyrsta ársfjórðungi. Hagnaður bankans dróst talsvert saman á milli ára, nam 1,4 milljörðum króna á tímabilinu samanborið við 4,5 milljarða á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs. Höskuldur segir um uppgjörið í tilkynningu bankans að þrátt fyrir að vaxtatekjur og þóknanatekjur séu í meginatriðum í takt við áætlanir þá hafi breytingar á verðmæti lána og sérstaklega gengisbreytingar veruleg neikvæð áhrif á uppgjörið. Arion banki á 60,78% hlut í Valitor.

Höskuldur nefnir jafnframt sekt Samkeppniseftirlitsins upp á hálfan milljarð króna á hendur Valitor hafa neikvæð áhrif á starfsemi Arion banka enda hafi hún verið færð til gjalda á þessum fyrsta fjórðungi ársins.

Valitor var sektað í apríl vegna ítrekaðra brota á kortamarkaði. Forsvarsmenn Kortaþjónustunnar, sem telja Valitor hafa brotið gegn sér, hafa skorað á Samkeppniseftirlitið að bæði lögregla og Fjármálaeftirlitið auk skattayfirvalda rannsaki hvort Höskuldur uppfylli hæfisskilyrði laga um fjármálafyrirtæki þar sem hann var framkvæmdastjóri Valitor á þeim tíma sem fyrirtækið var uppvíst að brotum á samkeppnislögum.

„Það er þó mikilvægt að áfram er góður stöðugleiki í grunnstarfsemi bankans og undirliggjandi efnahag,“ heldur Höskuldur áfram.