*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 14. febrúar 2020 10:22

Höskuldur vill í stjórn Skeljungs

Tilnefningarnefnd leggur ekki til að fyrrverandi bankastjóri Arion banka verði kjörin í stjórn Skeljungs. Tveir stjórnarmenn hætta.

Ritstjórn
Höskuldur Ólafsson, fyrrverandi bankastjóri Arion banka.
Haraldur Guðjónsson

Höskuldur H. Ólafsson, sem hætti á síðasta ári sem bankastjóri Arion banka, sækist eftir því að taka sæti í stjórn Skeljungs. Tilnefningarnefnd félagsins leggur hins vegar ekki með því að hann verði kjörin í stjórnina. Tveir af fimm stjórnarmönnum Skeljungs gefa ekki kost á sér. Jens Meinhard Rasmussen, sem verið hefur formaður stjórnar undanfarið ár, og Ata Maria Bærentsen fara úr stjórninni að loknum aðalfundi. 

Nefndin leggur til að í þeirra stað taki Elín Jónsdóttir, stjórnarformaður Borgunar, fyrrverandi framkvæmdastjóri VÍB og fyrrverandi forstjóri Bankasýslu ríkisins, sæti ásamt Dagnýju Halldórsdóttur, sem hefur setið í ISB Holding ehf., Advania MobilePay ehf., Kaffitárs ehf., Skipta hf. og Mílu ehf. og stýrt Pyngjunni (nú Síminn Pay) og fleiri félögum.

Tilnefningarnefndin segir að eftir mikla veltu á stjórnarmönnum undanfarin ár sé vilji til að gera sem minnstar breytingar á stjórninni. Því er lagt til að Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, Jón Ásgeir Jóhannesson, fjárfestir og Þórarinn Ævarsson, varaformaður stjórnarinnar og eigandi Remax á Íslandi haldi áfram í stjórn félagsins, en þau gáfu öll kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Lögfræðiþekking og frumkvöðlareynsla vega þungt

Þá telur nefndin eftir samtöl við hluthafa að vilji þeirra sé til að  stjórnin búi yfir mikilli lögfræðiþekkingu, einkum varðandi lagaumgjörð skráðra félaga og yfirgripsmikilli reynslu af stjórnun og rekstri. Elín Jónsdóttir, sem er menntaður lögfræðingur, falli vel undir þessa kröfu auk þess að hafa mikla stjórnunarreynslu.

Þá hafi Dagný Halldórsdóttir einstaka reynslu meðal frambjóðenda, bæði sem rafmagnsverkfræðingur og af frumkvöðulsstarfi. „Hún hefur unnið brautryðjendastarf m.a. á sviði internet- og tölvupóstþjónustu og greiðslulausnum á Íslandi. Þessi þekking og reynsla er einstök meðal frambjóðenda og gæti að mati nefndarinnar nýst Skeljungi hf. vel á næstu árum. Þá hefur Dagný mikla reynslu sem stjórnandi, ekki einungis hjá þeim fyrirtækjum sem hún hefur sofnað heldur einnig hjá Neyðarlínunni ohf. og Íslandssíma hf. auk þess að hafa setið í stjórnum Mílu ehf., Skiptum hf., Kaffitári ehf. og sem stjórnarformaður ISB Holding ehf,“ segir í skýrslu tilnefningarnefndarinnar.

Þekking Höskuldar þegar í stjórninni

Höskuldur sé vel hæfur og hafi mikla reynslu af því að stýra stóru fyrirtæki. „Sú þekking og reynsla er þó að miklu leyti einnig að finna meðal fyrrgreindra frambjóðenda,“ segir í skýrslu tilnefningarnefndarinnar. Því er ekki lagt til að Höskuldur taki sæti í stjórn félagsins.

Aðrir sem sóttust eftir sæti í stjórn Skeljungs voru Jón Gunnar Borgþórsson, sjálfstætt starfandi ráðgjafi og Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík .

Í tilnefningarnefndinni sátu Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs, Sigurður Kári Árnason, yfirlögfræðingur hjá heilbrigðisráðuneytinu og Þórarinn Arnar Sævarsson, stjórnarmaður í stjórn Skeljungs.