Ingólfur Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga, hefur afhent Fjármálaeftirlitinu (FME) bréf þar sem hann fer fram á að stofnunin fjarlægi „ærumeiðandi“ ummæli af heimasíðu sinni. Ef það verður ekki gert hyggst hann stefna FME enn á ný en Ingólfur hefur unnið tvö mál gegn stofnuninni og samtals verið dæmdar ríflega 10 milljónir króna í málskostnað og bætur.

„Ég hef séð mig knúinn til að senda Fjármálaeftirlitinu (FME) meðfylgjandi bréf vegna ærumeiðinga í minn garð á heimasíðu stofnunarinnar. Háttsemi FME í minn garð hefur verið dæmd ógild og skaðabótaskyld, en þrátt fyrir það skirrist stjórnvaldið við að fjarlægja meiðyrðin af vefsíðu sinni,“ segir í tilkynningu frá Ingólfi.

„Eins og segir í bréfi mínu er um að ræða umfjöllun FME frá 12. apríl 2011 undir fyrirsögninni „Athugasemd við frétt Fréttablaðsins" þar sem nafn mitt er ranglega bendlað við sakamálarannsókn.“

„Ég tel ljóst að FME brjóti a.m.k. gegn 235. og 236. gr. hegningarlaga og að ábyrgðin hvíli á forstjóra eftirlitsins.“

„Eftir að hafa unnið tvö dómsmál gegn FME og tvívegis fengið stuðning umboðsmanns Alþingis við kvörtunum mínum, þ. á m. vegna umfjöllunar á heimasíðu FME, þá finnst mér það sanngirnismál að þessi meiðandi ummæli verði fjarlægð og afsökunarbeiðni birt.“

„Hafi það ekki verið gert á morgun kl. 15:00 mun ég fela lögmanni mínum að höfða mál vegna þessa,“ segir í tilkynningu frá Ingólfi.