Hingað til hefur hugtakið óvinveitt yfirtaka fremur verið til umfjöllunar þegar kemur að málefnum viðskiptalífsins heldur en stjórnmálum. Á því gæti hins vegar orðið breyting. Nicolas Sarkozy, frambjóðandi hægri manna, sem samkvæmt skoðanakönnunum hefur yfirhöndina á sósíalistann Segolene Royal fyrir aðra umferð forsetakosninganna, hefur hótað því að ráðast í óvinveitta yfirtöku á UDF stjórnmálaflokki miðjumannsins Francois Bayrou ef hann neitar að lýsa yfir stuðningi við Sarkozy.

Talsmaður Sarkozy sagði í samtali við Financial Times í gær að hann væri að íhuga það að kljúfa sinn eigin flokk - UMP - í tvennt. Með því móti gæti einn armur flokksins náð til hefðbundinna gaullista og íhaldsmanna, á meðan hinn hlutinn gæti sótt fylgi til miðjumanna í flokki Bayrou.

Þessi aðgerð Sarkozy - ef af henni verður - er hluti af tvíþættri áætlun hans. Sarkozy biðlar til Bayrou með ýmiss konar gylliboðum en um leið setur hann aukinn þrýsting á hann á borð við það að hóta því að yfirtaka stjórnmálaflokk hans. Segolene Royal, forsetaframbjóðandi Sósíalistaflokksins, hefur ekki heldur látið sitt eftir liggja; á mánudaginn óskaði hún eftir því við Bayrou að hann myndaði bandalag með henni gegn Sarkozy. Bæði Royal og Sarkozy vita sem er að til þess að bera sigur úr býtum í forsetakosningunum mun það skipta höfuðmáli fyrir þau að ná til þeirra 6,8 milljóna manna sem kusu Bayrou í fyrstu umferð kosninganna um síðastliðna helgi.

Í ræðu sem Sarkozy hélt í Rouen í gær sagðist hann hins vegar ekki ætla að mynda einhver tilgerðarleg bandalög. "Ég mun ekki semja um einhverjar málamiðlanir sem stríða gegn sannfæringu minni og þeim skuldbindingum sem ég hef tekið á mig og 11 milljónir Frakka kusu mig út af í fyrstu umferð".

Það er búist við því að Bayrou muni á næstu dögum upplýsa hvorn frambjóðandann hann hyggist styðja, en fram að þessu hefur hann ekki viljað gefa neitt upp. Helstu samstarfsmenn hans innan UDF flokksins telja jafnvel líklegt að hann muni viðhalda sjálfstæði sínu gagnvart báðum frambjóðendunum og styðja hvorki Royal eða Sarkozy. André Santini, meðlimur UDF flokksins, sem hefur lýst yfir stuðningi við Sarkozy, sagði í gær að það væri mjög ofmetið hversu mikil áhrif Bayrou hefði; það væri ólíklegt að stuðningsmenn hans myndu flykkjast um annan hvorn frambjóðandann. Samkvæmt nýrri könnun rannsóknarstofnunarinnar Ipsos ætla 38% stuðningsmanna Bayrou að kjósa Royal í annarri umferð, 35% Sarkozy,en 27% segjast ætla að sitja hjá.

Sarkozy hefur lofað því að skipa ráðherra úr röðum UDF flokksins komist hann til valda í skiptum fyrir stuðning Bayrou. Einnig er talið að hann hafi gefið vilyrði fyrir því að flokkur Bayrou muni fá sextíu þingsæti í þingkosningunum sem fara fram í júní næstkomandi. En því fer fjarri að Sarkozy bjóði eingöngu upp á gulrætur: Francois Fillon, háttsettur ráðgjafi hans, sagði að ef Bayrou lýsi ekki yfir stuðningi við Sarkozy muni hann stilla upp upp sterkum frambjóðendum úr röðum UMP gegn þeim 27 þingmönnum úr flokki Bayrou sem sækjast eftir endurkjöri í júní.