*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 5. apríl 2020 12:04

Hótelin bíta

Mikil óvissa er um hve mikil áhrif kórónuveiran mun hafa á rekstur félanganna í Kauphöllinni.

Ritstjórn

Til marks um áhrif kórónuveirunnar á fasteignafélögin hafa tvö þeirra, Reitir og Eik, nú þegar tekið afkomuspá sína úr gildi fyrir árið í ár vegna mikillar óvissu um efnahagsleg áhrif faraldursins. Fyrstu áhrifanna á félögin mun eflaust gæta vegna hótela sem eru leigutakar félaganna. Þegar eignasöfn þeirra eru skoðuð er stærstur hluti hótela hjá Reitum eða um 20%. Hjá Eik er hlutfallið 11% auk þess sem félagið á og rekur hótelið 1919 við Pósthússtræti sem hefur ekki enn verið lokað en fram kom í tilkynningu frá Eik að rekstrarkostnaður hótelsins á meðan möguleg lokun varir er áætlaður um 10-12 milljónir króna á mánuði. Þessu til viðbótar hefur verslunum og veitingastöðum sem eru leigutakar félaganna verið lokað tímabundið vegna ástandsins.

Erfitt er að segja til um hve mikil fjárhagsleg áhrif verða á félögin vegna ástandsins. Fram kom í Markaðnum í síðustu viku að Reitir og Reginn myndu bjóða viðskiptavinum sínum upp á sveigjanleika og greiðslufresti en ekki yrði boðið upp á afslátt af leigugreiðslum. Það segir sig nokkurn veginn sjálft, ef svo fer þegar upp verður staðið að allir leigutakar muni standa skil á greiðslum og enginn þeirra muni hætta rekstri, að þá verði áhrifin lítil sem engin.

 Aftur á móti má gera ráð fyrir því að einhver hótel og verslun muni einfaldlega ekki lifa ástandið af og þurfi þar af leiðandi að hætta rekstri með tilheyrandi tapi fyrir félögin. Þá má einnig gera ráð fyrir að ef ástandið verður langvinnt efnahagslega að erfitt gæti reynst að fylla það húsnæði sem mun standa autt. Þess má þó geta að staða fasteignafélaganna er almennt sterk, leigutakar þeirra eru dreifðir og mynda opinberir aðilar og stór fyrirtæki um og yfir helming af leigutökum.

Fá tjón í samkomubanni? 

Bæði VÍS og Sjóvá hafa tekið afkomuspá sína fyrir árið úr gildi og var afkoma af fjárfestingarstarfsemi nefnd sem stærsti óvissuþátturinn. Það gefur auga leið að lækkanir á hlutabréfamarkaði munu hafa töluverð áhrif á fjárfestingartekjur þó vissulega vegi lækkandi ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði upp á móti. Er þetta sem dæmi önnur staða en haustið 2018 þegar hlutabréfaverð lækkaði töluvert á sama tíma og ávöxtunarkrafa á markaði hækkaði.

Hvað varðar vátryggingarekstur félaganna mun samdráttur í efnahagslífinu að öllum líkindum leiða til þess að iðgjöld dragist saman enda er töluverð fylgni milli umsvifa í vátryggingum og hagsveiflunni. Þá mun töluverður samdráttur í ferðaþjónustu hafa áhrif enda hafa flest hópferðafyrirtæki nú þegar tekið bíla af númerum auk þess sem útlit er fyrir að umsvif ferðaþjónustunnar muni dragast töluvert saman. Þá verður einnig að teljast líklegt að tryggingafélögin muni reyna að koma til móts við viðskiptavini sína með einhverjum hætti t.d. með að veita gjaldfresti. Fyrirtækin gætu við þessar aðstæður farið þá leið að lækka verð á tryggingum en eftir sem áður er það viðfangsefni vátryggingafélaga að verðleggja áhættu og því ólíklegt að fyrirtækin fari að bjóða upp á iðgjöld sem eru undir verði áhættunnar.

Sögulega hefur almennt orðið samdráttur í vátryggingarekstri þegar samdráttur á sér stað í efnahagslífinu. Í hefðbundnum samdrætti hefur venjulegt líf hins vegar nokkurn veginn gengið sama gang en vegna samkomubanns eru óneitanlega óvenjulegar aðstæður. Ein áhugaverðasta spurningin hvað varðar tryggingafélögin er því hvort sú staðreynd að fólk sé að mestu heima við og að fyrirtæki hafi dregið úr umsvifum sínum muni leiða til þess að verulega dragi úr tjónaþunga meðan á ástandinu stendur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér