Howden, alþjóðlega vátryggingamiðlunin, hefur opnað útibú í Reykjavík. Útibúið er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi með einkar víðfeðmt framboð trygginga. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

„Megin áhersla Howden á Íslandi er að þjónusta fyrirtæki er starfa á innlendum og alþjóðlegum mörkuðum. Howden mun styðja við samþættingu trygginga á hagstæðum kjörum og skilmálum. Howden á Íslandi býður upp á mikla breidd trygginga ásamt ráðgjöf tengda forvarnar- og áhættustjórnun. Howden Ísland veitir greiðan aðgang að innlendum sem alþjóðlegum vátryggingafélögum samhliða víðtækri alhliða vátryggingaþjónustu,“ segir í tilkynningunni.

Benedikt I. Elísson hefur gengið til liðs við Howden eftir 42 ár Eimskipi. Þar starfaði Benedikt meðal annars sem forstöðumaður trygginga-/tjóna- /forvarna- og öryggismála. Jafnframt sinnti hann fjölbreyttum stjórnunarstöðum á markaðs- og rekstrarsviði fyrirtækisins á Íslandi, Svíþjóð og Nýfundnalandi.

Bjarni Ólafsson hefur einnig verið ráðinn til Howden en Bjarni hefur til að mynda starfað hjá þremur íslenskum vátryggingafélögum. Þar starfaði hann meðal annars sem viðskiptastjóri, deildarstjóri fyrirtækjasviðs, fagstjóri og sérfræðingur í forvörnum og áhættumati.

Howden var stofnaði árið 1994 og starfa nú yfir 8.000 aðilar hjá fyrirtækinu víðs vegar um heiminn. Í samstarfi við aðra sérhæfða vátryggingamiðlara, nær starfsemi fyrirtækisins til ríflega 90 landa.