Lagadeild Háskólans í Reykjavík og Fjármálaeftirlitið skrifuðu í dag undir starfsnámssamning fyrir nemendur lagadeildar. Þetta er 16. samningur lagadeildar við stofnanir og fyrirtæki um starfsnám fyrir nemendur sem þeir fá metið til eininga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HR.

Hluti af meistaranámi við lagadeild Háskólans í Reykjavík getur farið fram í viðurkenndu starfsnámi og getur nemandi fengið allt að 6 einingar metnar í meistaranámi á grundvelli starfsnámssamninga lagadeildarinnar og einstakra stofnana og fyrirtækja.

Það skilyrði er sett í reglum um starfsnám að nemandi vinni undir eftirliti umsjónaraðila að lögfræðilegu verkefni eða verkefnum sem séu sannarlega til þess fallin að auka þekkingu hans í lögfræði og hæfni til að vinna að úrlausn lögfræðilegra verkefna.

Lagadeild HR hefur þar með gert starfsnámssamninga við eftirtaldar stofnanir og fyrirtæki:

  • Dómsmálaráðuneytið
  • Einkaleyfastofuna
  • Glitni hf.
  • Héraðsdóm Reykjaness
  • Héraðsdóm Reykjavíkur
  • Landsbanka Íslands hf.
  • Lex-Nestor lögmannsstofu
  • LOGOS lögmannsþjónustu
  • Póst- og fjarskiptastofnun
  • Sjóvá - Almennar Tryggingar hf.
  • Straum - Burðarás fjárfestingarbanki hf.
  • Utanríkisráðuneytið
  • Samkeppniseftirlitið
  • Umhverfisráðuneytið
  • Icebank
  • Fjármálaeftirlitið