Síðasta laugardag útskrifuðust 53 MBA-nemendur frá Háskólanum í Reykjavík. Athöfnin fór fram í Borgarleikhúsinu við hátíðlega athöfn þar sem tæplega 400 manns fögnuðu þessum áfanga útskriftarnemanna. Nemarnir hófu námið haustið 2008, en MBA-námið er tveggja ára meistaranám í alhliða stjórnun og er nám samhliða vinnu.

Aðalsteinn Leifsson, forstöðumaður MBA-námsins, stjórnaði athöfninni sem var í senn skemmtileg og hátíðleg að því er fram kemur í tilkynningu frá HR. Til máls tók Ari Kristinn Jónsson rektor og ræddi um hve mikilvæg liðsheild, hópastarf, samstarf og þverfagleg hugsun væri nú á tímum.

Friðrik Már Baldursson forseti viðskiptadeildar hvatti nemendur til að nýta menntun sína til góðs. Hann vitnaði í Gunnarshólma og hve mikilvægt það er á tímum sem þessum að setja undir sig hausinn og halda áfram þrátt fyrir efnahagserfiðleika og þá óblíðu en stórkostlegu náttúru sem við búum við.

Kristrún Lilja Júlíusdóttir flutti ávarp fyrir hönd nemenda og lýsti upplifum sinni á þessum tveimur árum, hversu stórkostlegur þessi tími hefði verið og þroskandi. Hún sagði útskriftarhópinn mjög ánægðan með námið, skólann og þau dýrmætu tengsl sem þar hefðu myndast.

Finnur Oddsson fyrrverandi forstöðumaður MBA-námsins, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og formaður háskólaráðs HR flutti að lokum ávarp og veitti Frey Þórðarsyni verðlaun fyrir hans einstaka framlag til samnemenda. Mikil áhersla er lögð á hópastarf, liðsheild og samstarf í MBA náminu og var sá siður tekinn upp fyrir þremur árum að nemendur kjósa samnemanda sem þeim hefur þótt leggja hvað mest af mörkum til hópsins.