Tap bandaríska dekkjaframleiðandans Goodyear nam alls 330 milljónum Bandaríkjadala á fjórða ársfjórðungi síðasta árs eða því sem nemur 1,37 dölum á hvern hlut samanborið við hagnað upp á 52 milljónir dala eða því sem nemur 23 centum á hvern hlut árið áður.

Tap félagsins er því umfram væntingar en greiningaraðilar á vegum Bloomberg fréttaveitunnar höfðu gert ráð fyrir tapi upp á 1,13 dali á hvern hlut.

Tekjur félagsins drógust nokkuð saman og námu á ársfjórðungnum alls 4,1 milljarði dala samanborið við 5,2 milljarða dali árið áður. Þá dró félagið úr framleiðslu um 19% á síðari hluta ársins.

Goodyear, sem er stærsti dekkjaframleiðandi Bandaríkjanna, áætlar nú að segja upp allt að 5 þúsund manns eða 6,7% allra starfsmanna félagsins í þeim tilgangi að ná niður rekstrarkostnaði auk þess sem félagið mun frysta öll laun starfsmanna (engar launahækkanir). Á mun félagið endurskipuleggja rekstrarkostnað sinn og er talið að þær aðgerðir ásamt uppsögnum og frystingu launa muni spara félaginu um 700 milljónir dala.

Tapið nú kemur til þrátt fyrir að félagið hafi síðustu þrjú ár unnið að því að endurskipuleggja reksturinn og náð rekstarkostnaði niður um 1,8 milljarða dala á þeim tíma, að eigin sögn.

Goodyear sagði upp um 4 þúsund manns á síðastar ári en hjá félaginu starfa nú um 75 þúsund manns víðs vegar um heiminn.

„Hráefniskostnaður er að íþyngja félaginu verulega,“ hefur Bloomberg eftir greiningaraðila á Wall Street en hráefni á borð við gúmmí, trefjar, stál, tjara og olía nema um 40% af kostnaði félagsins.