Á kynningarfundi Seðlabankans í dag kom fram að bankinn hefur bætt inn í nýjum vaxtaákvörðunarfundi þann 8. apríl. Að sögn Snorra Jakobssonar, sérfræðings hjá IFS ráðgjöf, virðist sem svo að Seðlabankinn ætli að taka fleiri en smærri skref við vaxtalækkanir.

,,Athygli vekur að Seðlabankinn telur 100 punkta vaxtalækkun varfærna lækkun. Það gæti bent til þess að næsta vaxtalækkun verði meiri ef undirliggjandi gögn gefa tilefni til. Nýjar verðbólgutölur verða birtar 24. mars næstkomandi og mun niðurstaða þeirra líklega hafa áhrif á stýrivaxtaákvörðun þann 8. apríl," sagði Snorri.

Snorri benti á að Seðlabankinn gerir ráð fyrir að ná verðbólgumarkmiði sínu (2,5%) á fyrsta ársfjórðungi 2010 sem bendir til þess að vaxtastig ætti að verða orðið nokkuð lágt eftir 12 mánuði.

,,Hratt vaxtalækkunarferli er því væntanlegt. Þetta er þó háð því að gengi krónunnar verði nokkuð stöðugt," sagði Snorri sem bendir á að IFS ráðgjöf gerir ráð fyrir 5% stýrivöxtum í byrjun árs 2010.

,,Seðlabankinn undirstrikaði röksemdafærslu sem hefur áður komið fram hjá honum og AGS, þ.e. að ákvarðanir í peningamálum þurfa að taka mið af því að gjaldeyrishöftunum verði að lokum aflétt. Orðrétt segir: „Nægjanleg áhættuleiðrétt ávöxtun innlendra fjáreigna þarf því áfram að vera til staðar” m.ö.o, Seðlabankinn mun leitast við að halda raunvöxtum jákvæðum og halda „nægjanlegum” vaxtamun við útlönd. Einnig vakti athygli að bankinn taldi að ekki væru aðstæður til afnáms gjaldeyrishafta. Það gæti því eitthvað dregist á langinn að gjaldeyrishöftin verða afnumin," sagði Snorri.