Hrein ný útlán stóru viðskiptabankanna þriggja til fyrirtækja, annarra en eignarhaldsfélaga, námu samtals 51 milljarði króna á fyrstu þremur fjórðungum ársins, að því er kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans. Það þýðir að hrein ný lán til fyrirtækja hafa verið um 5,6 milljarðar á mánuði á tímabilinu.

Seðlabankinn hóf á miðju þessu ári að safna nákvæmari upplýsingum um ný útlán innlánsstofnana til heimila og fyrirtækja. Einnig kemur fram að hrein ný útlán til heimila, þ.e. ný útlán að frádregnum uppgreiðslum, námu 38 milljörðum króna á þessu tímabili.