Hrein peningaleg eign hins opinbera, þ.e. peningaleg eign umfram skuldir, var neikvæð um 301 milljarð króna í árslok 2008, eða sem svarar 20,5% af landsframleiðslu.

Hún hafði versnað um rúmlega 312 milljarða króna milli ára eða um 21,4% af landsframleiðslu.

Þá námu  peningalegar eignir hins opinbera 1.065 milljörðum króna í árslok 2008 og heildarskuldir 1.366 milljörðum króna.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands en í dag eru þar birt Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera árið 2008. Hér er þó um bráðabirgðatölur að ræða.

Þar kemur fram að tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um ríflega 17 milljarða króna árið 2008, eða 1,2% af landsframleiðslu og 2,7% af tekjum. Til samanburðar var tekjuafkoman jákvæð um 5,4% af landsframleiðslu 2007 og 6,3% árið 2006.

„Þessi skarpi viðsnúningur á fyrst og fremst rætur að rekja til minni tekna hins opinbera, en skatttekjur drógust lítillega saman milli ára í krónum talið á sama tíma og útgjöldin jukust um rúmlega 18%,“ segir á vef Hagstofunnar.

Að teknu tilliti til 192,2 milljarða króna yfirtöku ríkissjóðs á töpuðum kröfum vegna veðlána Seðlabankans er tekjuafkoma hins opinbera neikvæð um 209,3 milljarða króna 2008 eða 14,3% af landsframleiðslu.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar.