Hið sameinaða félag Kviku banka, TM og Lykils fjármögnunar hagnaðist samtals um 6.144 milljónir króna á fyrir helmingi ársins, ef hagnaður TM og Lykils á fyrsta fjórðungi er tekinn með. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri sem Kvika birti í morgun.

Hreinar vaxtatekjur Kviku banka hf. námu 1.775 milljónum króna og jukust um 105% miðað við sama tímabil árið áður. Í tilkynningu bankans segir að aukning vaxtatekna skýrist af breyttri samsetningu útlánasafns og lausafjáreigna ásamt hagstæðri þróun fjármagnskostnaðar, sér í lagi á öðrum ársfjórðungi.

Jákvæðar virðisbreytingar voru 104 milljónir króna á tímabilinu samanborið við virðisrýrnun upp á 209 milljónir á fyrri helmingi síðasta árs.

Hreinar fjárfestingatekjur Kviku námu 2.558 milljónum króna en góð ávöxtun var á flestum þeim eignamörkuðum sem bankinn starfar á. Þóknanatekjur héldu áfram að vaxa og námu hreinar þóknanatekjur 3.514 milljónum króna sem er 17% aukning frá fyrra ári.

Fram kemur samsett hlutfall TM sé sögulega lágt og nam 80,8% á öðrum ársfjórðungi samanborið við 88,7% á sama tímabili árið áður. Fjárfestingartekjur tryggingafélagsins námu 1.142 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi og ávöxtun eignasafnsins því 3,6% á tímabilinu.

Heildareignir samstæðu Kviku banka hf. jukust um 98% eða um 121 milljarða á árshelmingnum og námu 245 milljörðum króna.
Kvika, TM og Lykill sameinuðust í lok mars og hlutabréf sameinaða félagsins voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni þann 6. apríl síðastliðinn. Heildareignir samstæðu Kviku banka jukust um 98% eða um 121 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins og námu 245 milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar var 74 milljarðar króna.

Kvika banki hefur gefið út nýja afkomuspá sem gerir ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta verði á bilinu 4,0-5,0 milljarðar króna á seinni helmingi ársins. Nýja afkomuspáin gerir þá ráð fyrir 10,1-11,1 milljarða hagnað félaganna þriggja yfir árið 2021, þegar afkoma TM og Lykils á fyrsta fjórðungi er tekin með.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka:

Samruni Kviku banka hf., TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. hefur gengið framar vonum eins og sjá má í fyrsta rekstraruppgjöri samstæðunnar. Vel hefur gengið að ná þeim fjárhags- og rekstrarmarkmiðum sem sett voru við samruna félaganna.

Sameinað félag býr yfir fjárhagslegum styrkleika þar sem grunnreksturinn byggir á mörgum styrkum stoðum. Með því hefur félagið getu til þess að veita mjög fjölbreytta fjármálaþjónustu til framtíðar. Öll svið félagsins skiluðu góðri afkomu og er afkoma tryggingareksturs TM á árshelmingnum sú besta í sögu félagsins.

Á næstu mánuðum munum við auka samkeppni og leitast við að einfalda fjármálaþjónustu fyrir núverandi og nýja viðskiptavini, með nýjungum í vöruframboði og þjónustu. Það eru spennandi tímar framundan.