Varðar það sérfræðinga skaðabótaábyrgð að hafa ekki grandskoðað í hvað hlutafé, sem kemur inn í félag í kjölfar hlutafjárhækkunar, er nýtt? Á því byggir þrotabú Sameinaðs sílíkons hf. (USI) í máli sem það hefur höfðað gegn fyrrverandi endurskoðanda félagsins og EY. Meint brot á gjaldeyrislögum og peningaþvætti tvinnast saman við málið sem og stórmerkilegur fundur á bókhaldsgögnum.

Sorgarsögu USI, eftir að verksmiðjan hóf starfsemi, ætti ekki að þurfa að rekja sérstaklega. Atvik þessa máls áttu sér aftur á móti stað áður en kveikt var á ofni hennar og því rétt að rekja forsöguna eilítið.

Einhverjum ætti að vera í fersku minni að áður en lagt var af stað með USI-verkefnið hafði Magnús Garðarsson, helsta driffjöður verkefnisins, áformað fyrir efnahagshrun að reisa sambærilega verksmiðju undir merkjum Íslenska kísilfélagsins hf. (ÍKF) en félag að nafni Tomahawk Development hf. (THD) kom einnig að þeim undirbúningi. Sú áform fóru hins vegar út um þúfur.

Á fyrstu árum síðasta áratugar var lagt af stað af nýju og voru félögin Stakksbraut 9 hf. (S9) og USI stofnuð í þeim tilgangi. Að sögn þeirra sem þekkja til var S9 ætlað að útvega lóð, framleiðsluleyfi og samninga um raforku áður en félögin tvö, það er USI og S9, yrðu sameinuð.

Hlutafé S9 var hækkað um 673 milljónir króna í september 2014 með tveimur gjörningum. Var sú hækkun ýmist framkvæmd með því að breyta skuldum í hlutafé eða þá að greitt var fyrir hlutaféð með peningum. Þær ráðstafanir voru staðfestar af endurskoðanda félagsins, Rögnvaldi Dofra Péturssyni, en honum er stefnt til varnar í umræddu máli.

Hringfært hlutafé?

Við könnun skiptastjóra á þrotabúinu kom í ljós að inngreitt hlutafé staldraði sjaldnast lengi við inni á reikningum S9. Þvert á móti var það yfirleitt greitt út úr félaginu innan dags til hollensks félags, Pyromet Engineering (PE) að nafni, sem reikningar báru með sér að væri erlent verkfræðifyrirtæki. Grunsemdir hafa vaknað um að hafi verið á vegum Magnúsar.

PE er alls kostar ótengt hinu suðurafríska Pyromet, sem síðar sameinaðist hinu ítalska Tenova, sem kom að hönnun og smíði ofns verksmiðjunnar. Í aðalmeðferð málsins, sem fór fram síðasta fimmtudag, var Rögnvaldur Dofri spurður að því hvort honum hefði ekki þótt óeðlilegt að hlutaféð kæmi inn og hyrfti jafnharðan af reikningum S9 og færslan síðar eignfærð í bókum félagsins.

„Tilgangur S9 var ekki að safna peningum heldur að greiða skuldir og reikninga. Það kostar hellings pening að hanna og byggja upp stóriðju þannig að það voru borgaðir peningar inn í félagið í takt við það þegar því bárust reikningar. Það stóð aldrei til að því yrði skilað með innistæðum við samrunann við USI. Ef menn hefðu aftur á móti verið að hækka hlutafé ekki út af neinu, það hefði vakið athygli mína,“ sagði Rögnvaldur Dofri.

Samkvæmt síðasta ársreikningi S9 var handbært fé 94 þúsund kónur og hlutafé 673 milljónir króna. Hlutaféð var greitt af THD og greitt jafnharðan til PE. Á þeim tímum sem þessir gjörningar áttu sér stað stóð aðilum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands til boða. Fyrir liggur að fé kom inn í THD erlendis gegnum úrræðið, þaðan rann það til S9, sem jafnharðan greiddi peningana áfram, á grunni útgefinna reikninga til PE. Greiðslurnar voru síðan færðar sem óefnisleg eign, alls 998 milljónir króna, í bókum S9.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .