GMR Endurvinnslan hefur keypt íslenska starfsemi endurvinnslufyrirtækisins Hringrásar af þeim Einari Ásgeirssyni og Sveini Ásgeirssyni. Ætlunin er að byggja upp fyrirtæki sem tekur þátt í verkefnum erlendis. Kaupverðið er trúnaðarmál, en hluti kaupverðsins er greiddur með þeim hætti að Einar og Sveinn eignast hlut í GMR Endurvinnslunni.

"Það sem er kannski áhugavert í þessu er að GMR er að vinna úr hráefnunum sem Hringrás hefur verið að safna,“ segir Eyþór Arnalds, stjórnarformaður GMR. Hann segir aðspurður að með sameiningu fyrirtækjanna náist ákveðin samlegð. „Það verður meira um það að endanleg vara sé búin til á Íslandi, í staðinn fyrir að hráefnið sé flutt út.“

Vöruþróun og útrás

Félagið GMR Endurvinnslan ehf. var stofnað árið 2010. Fyrirtækið opnaði verksmiðju á Grundartanga árið 2013 þar sem straumteinar og fleiri hlutir úr stáli frá íslenskum álverum eru endurunnir.

„Þetta er ákveðin vöruþróun og útrás, byggt á íslenska álmarkaðnum. Með [kaupum á] Hringrás þá er verið að sameina kraftana,“ segir Eyþór. Hann segist ekki búast við miklum breytingum í starfsmannafjölda í náinni framtíð. „Svo er bara spurning að þróa þetta skynsamlega áfram og reyna að ná sem mestu virði út úr því sem hefur hingað til verið hráefni,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .