„Það er gríðarlega einbeittur ásetningur hjá öllum að ná góðum árangri í kvöld, bæði með söng, stuðningi og með öðrum tilburðum til að styðja liðið,“ segir lögmaðurinn Hróbjartur Jónatansson. Þegar VB.is heyrði í honum fyrir um stundu sat hann ásamt fjölda Íslendinga sem komið höfðu saman á bar í Zagreb í Króatíu til að hita upp fyrir annan umspilsleik landsliða Íslands og Króatíu á Maksimir-leikvanginum í kvöld. Hróbjartur, sem sat undir skyggni við barinn í úrhellisrigningu í Zagreb, taldi á milli 60-70 Íslendinga hafa hist á barnum til að hita upp fyrir leikinn. Stemningin er gríðarlega góð, að hans sögn.

Á meðal annarra gesta á barnum eru Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, fjárfestirinn Heiðar Már Guðjónsson, ferðaþjónustumógúllinn Davíð Másson og fleiri.

Ferðalangarnir stoppa ekki lengi við úti í Zagreb. Hvernig sem leikurinn endar þá fer hópurinn beint út á flugvöll aftur að honum loknum. Hróbjartur er bjartsýnn á úrslit leiksins.

„Við viljum koma við heima áður en við förum til Brasilíu,“ segir hann.