Hrun Colonial Bank Group er talin muni kosta innistæðutryggingasjóð Bandaríkjanna, Federal Deposit Insurance Corp (FDIC), um 2,8 milljarða dollara. Alls hafa 70 bankar farið á hliðina það sem af er ári í Bandaríkjunum. Bankinn sem einkum hefur lánað til fasteignaviðskipta í Montgomery í Alabama átti eignir sem metnar voru á um 25 milljarða dollara að því er segir í frétt BBC News.

Innistæðutryggingasjóður hefur heimilað sölu á 20 milljarða dollara innistæðum Colonial Bank til BB&T bankans sem er með höfuðstöðvar í Norður-Karólínu ríki. Mun MM&T einnig kaupa eignir af bankanum upp á 22 milljarða dollara.

Auk þessa hefur FDIC gengist inn á samkomulag við BB&T um skiptingu á tapi vegna eigna Colonial bankans upp á 15 milljarða dollara að því er BBC hefur eftir yfirvöldum.