Hlutabréfamarkaðir í Asíu hrundu í dag en það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins.

Þannig lækkaði MSCI Kyrrahafs vísitalan um 6,5% í dag en vísitalan hefur lækkað um 17% í þessari viku. Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar er þetta mesta lækkun vísitölunnar á einni viku síðan hún var stofnuð, þann 31. des. 1987. Þá hefur hún lækkað um 45% það sem af er ári.

„Það er algjör örvænting á mörkuðum,“ hefur Bloomberg eftir viðmælanda sínum.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 9,6%, í Kína lækkaði CSI 300 vísitalan um 8% og í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 7,2%.

Í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 7,6% og í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 8,3% og hefur ekki lækkað svo mikið á einum degi í rúm 20 ár að sögn Bloomberg.