Endurskoðendurnir Jón Þ. Hilmarsson og Stefán Svavarsson hafa birt grein á vef Viðskiptablaðsins um hrun íslensku bankanna.

„Rétt tæpur áratugur er nú liðinn frá birtingu síðustu ársreikninga íslensku viðskiptabankanna fyrir hrun og orðið ljóst að ekki verða flutt nein mál fyrir dómstólum sem varða reikningsskil þeirra,“ segir grein Jóns og Stefáns. „Enn eru eflaust skiptar skoðanir á innihaldi og framsetningu þeirra en minna um rökstudda gagnrýni.  Þessir ársreikningar voru áritaðir án fyrirvara, annaðhvort af PWC eða KPMG.  Álitaefnin eru mörg en hér verður tekið til umfjöllunar eitt þeirra sem aldrei reyndi á fyrir dómi en það varðar meðferð eigin hlutabréfa í reikningsskilum bankanna.

Í umræðu um hrunið á umliðnum árum hefur því verið haldið á lofti að hrunið á Íslandi hafi aðallega átt rót að rekja til atburða erlendis.  Sú skoðun orkar mjög tvímælis, því gild rök styðja, eins og hér verður reynt að gera grein fyrir, að hrunið hafi fyrst og fremst verið af innlendum uppruna og eru umfangsmikil kaup á eigin bréfum stór hluti skýringarinnar.

Það hefði haft geipilega mikil og jákvæð áhrif fyrir marga notendur reikningsskila bankanna ef hin fjárhagslega frásögn af stöðu bankanna í árslok 2007 hefði verið þokkalega rétt varðandi eigin bréf, meira hefði trúlega ekki þurft til.“

Hægt er að lesa grein Jóns og Stefáns hér .